Árið gert upp

Starfsemi Svæðafélags HRFÍ á Norðurlandi var með hefðbundnu sniði þetta árið. Dagskráin var fjölbreytt og yfirleitt vel sótt af félagsmönnum og öðru hundaáhugafólki.

Aðalfundur félagsins var haldin 5. mars. Líkt og árið áður var dræm mæting á fundinn. Stjórn gaf kost á sér áfram og komu engin mótframboð og hélst stjórn því óbreytt.

Í mars augnskoðaði Jens Knudsen dýralæknir hunda í Dýralæknaþjónustu Eyjafarðar, Dýrey. Svæðafélagið kann þeim stöllum í Dýrey bestu þakkir fyrir veitta aðstoð í gegnum árin.

Hlýðnihittingar félagsins hafa nú staðið yfir samfleytt í sex ár. Æfingarnar fara fram vikulega yfir vetratímann og standa öllum til boða, óháð félagsaðild að HRFÍ. Mikil aðsókn hefur verið á æfingarnar sem fara ávalt fram utandyra í öllum veðrum. Tvö hlýðninámskeið fóru fram á árinu sem voru vel sótt. Áhuginn á hlýðniþjálfun endurspeglast svo í góðri þátttöku í hinu árlega hlýðniprófi Svæðafélagsins og Vinnuhundadeildar sem í ár var tvöfalt og fór fram helgina 19-20 október, dómari var Albert Steingrímsson. Alls tóku sjö hundar þátt í prófunum.Mikil og góð stemning myndast alltaf í prófunum og telur Svæðafélagið óhætt að stefna að öðru tvöföldu prófi að ári.

Góð þátttaka var einnig á veiðiprófi Retrieverdeildar á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit sem fór fram helgina 22.-23. júní. Óhætt er að fullyrða að hin gríðarlega aukning sem hefur orðið á sportinu eigi einnig við um retrievereigendur á Norðurlandi sem má merkja í skipulögðum æfingum og þátttöku í veiðiprófum.

Líkt og fyrri ár stóð Svæðafélagið fyrir sýningarþjálfunum fyrir allar sýningu HRFÍ. Mikið hefur dregið úr aðsókn á æfingarnar þetta árið í samanburði við fyrri ár. Þó er ákveðin kjarni sem sækir héðan reglulega sýningar en þeim gafst tvívegis tækifæri á sýningarnámskeiðum frá reyndum sýnendum frá Reykjavík og var vel af þeim látið.

Stjórn Svæðafélagsins sendir félögum sínum um land allt bestu kveðjur og óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár og þakkar fyrir starfsárið sem er að líða.